Viðskipti innlent

FL Group með mikla fjárfestingagetu

FL Group situr uppi með mikla fjárfestingagetu eftir að sala á 22,6 prósenta hlut félagsins í Straumi-Burðarási var samþykkt í morgun. Greiningardeild Glitnis segir að þrátt fyrir að hlutirnir séu seldir með tapi þá hafi félagið náð að auka hlutafé á yfirverði á erfiðum hlutafjármarkaði í sumar.

Greiningardeildin segir í Morgunkorni sínu í dag að svo virðist sem áætlanir FL Group varðandi fjárfestinguna í Straumi hafi ekki gengið eftir en standi engu að síður sterkara eftir. Auk sterkrar eiginfjárstöðu, sérstaklega eftir söluna á Icelandair, var í gær tilkynnt um undirritun 37 milljarða króna fjármögnunar hjá breska bankanum Barleys Capital.

„Við væntum þess FL Group finni fjármunum sínum farveg á næstu dögum og vikum. Á fjárfestakynningu í Amsterdam fyrir skömmu gáfu stjórnendur félagsins til kynna að frekari yfirtökur væri að vænta á félögum á evrópskum drykkjarvörumarkaði," segir greiningardeildin.

Deildin segir hins vegar óvissu ríkja um framtíð og stefnu Straums sökum opinbers ágreinings stjórnarmanna. Innkoma FL Group í stjórn félagsins færði ró á hana. Bent er á að Samson og tengd félög hafa tögl og hagldir í Straumi og virðist stjórnarsamstarf stóru hluthafanna í bankanum ekki náð að mynda aukinn slagkraft fyrir fjárfestingabankann.

Greiningardeildin telur ennfremur að Straumur muni selja helmingshlutinn sem hann keypti af FL Group til fjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×