Yfirmaður knattspyrnumála hjá Portsmouth, Peter Storrie, segir ekki koma til mála að félagið selji framherjann Kanu í janúar. Fréttir í gær hermdu að framherjinn ætlaði að fara frá félaginu í janúar ef honum yrði boðinn betri samningur hjá öðru liði, en Kanu hefur farið á kostum með Portsmouth í vetur og er óvænt markahæstur í deildinni með 9 mörk.
"Það kemur einfaldlega ekki til greina að selja Kanu, enda er hann samningsbundinn félaginu fram á næsta sumar og þá er möguleiki á árs framlengingu. Það er eðlilegt að rætt sé um framtíð hans þegar hann er að spila svona vel, en hann er okkar leikmaður og sú umræða nær ekkert lengra," sagði Storrie.