Fyrra slysið í gær varð með þeim hætti að kínverskur verkamaður fékk ofan á sig steypuklump þar sem verið var að steypusprauta göng, en síðan féll maður niður úr stiga. Hvorugur er alvarlega slasaður en báðir voru fluttir á sjúkrahús.
Fyrir helgina, fór vinnueftirlitið fram á það bréflega, að öryggi yrði tryggt á svæðinu og það staðfest af eftirlitsaðila vinnueftirlits ríkisins áður en vinna verði leyfð áfram. Eyjólfur Sæmundsson forstjóri Vinnueftirlits ríkisins segir að slaknað hafi verulega á daglegu innra öryggiseftirliti og hann segir það lágmarkskröfu að mál verði þegar í stað sett í rétta forgangsröð; "Öryggið númer eitt, verkið númer tvö."
Fjórir hafa látist við Kárahnjúka og tæplega tólf hundruð vinnuslys hafa verið tilkynnt til vinnueftirlitsins frá því bygging virkjunarinnar hófst.
Oddur Friðriksson yfirtrúnaðarmaður á Kárahnjúkasvæðinu segir að kerfislægt séu öryggismál í ágætu lagi, en nú séu menn að horfa fram á aukna áhættuhegðun starfsfólks og verkstjóra og það sé vandamálið í dag. Þá telur Oddur ákveðið kæruleysi einkenna framkvæmdir á lokaspretti þeirra. Eyjólfur tekur undir það og nefnir sem dæmi að yfirmaður öryggismála hjá Impregilo sé farinn í jólafrí. Það sé með engu móti hægt að fallast á.