Alan Curbishley, sem Eggert Magnússon fékk til að stýra skútu West Ham fyrir skemmstu, segir að það verði erfitt fyrir félagið að losna úr greipum botnbaráttunnar í ensku úrvalsdeildinni miðað við frammistöðuna sem liðið sýndi gegn Portsmouth í gær. West Ham er í 18. sæti deildarinnar og í fallsæti.
“Það er mikil vinna framundan og ég gerði mér fyllilega grein fyrir því áður en ég skrifaði undir. Það þarf ekki annað en að líta á stigatöfluna til að sjá að það er ekki allt með felldu. Það er ekki auðvelt að losna úr slíkri botnbaráttu,” segir Curbishley.
Enski þjálfarinn segir að hann muni ábyggilega reyna að fá einhverja nýja leikmenn til liðsins í næsta mánuði en að í augnablikinu einbeiti hann sér að því að ná sem mestu út úr þeim leikmönnum sem hann hafi. Athygli vakti að ekkert pláss var fyrir Javier Macherano né Lee Bowyer í leikmannahópi West Ham gegn Portsmouth.
“Ég talaði lengi við Bowyer og ég veit að hann er algjörlega trúr þessu félagi. Hann skildi ákvörðun mína og veit að hún þýðir alls ekki að ferli hans hér er lokið. Hann getur ennþá gert mikið og gott starf fyrir West Ham,” sagði Curbishley en minntist ekki einu orði á Mascherano.