Guðjón Valur Sigurðsson lét fara óvenju lítið fyrir sér þegar Gummerbach bar sigurorð af Dusseldorf í þýska handboltanum á útivelli í kvöld, 28-27. Guðjón Valur skoraði þrjú mörk og Sverre Jacobsen eitt. Róbert Gunnarsson og Guðlaugur Arnarson skoruðu ekki. Fjölmargir leikir fóru fram í Þýskalandi í kvöld.
Einar Hólmgeirsson skoraði eitt mark fyrir Grosswallstad sem tapaði fyrir Flensburg á útivelli. Alexander Petersson lék ekki með vegna meiðsla.
Einar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Minden og Snorri Steinn Guðjónsson eitt þegar lið þeirra tapaði fyrir Kronau/Östrigen á heimavelli, 22-19. Lemgo tapaði óvænt fyrir Balingen, 30-22, þar sem Logi Geirsson skoraði þrjú mörk en Ásgeir Örn Hallgrímsson eitt mark fyrir Lemgo.
Þórir Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Lubecke sem vann góðan útisigur á Hildesheim. Birkir Ívar Guðmundsson lék einnig fyrir Lubecke. Þá skoraði Gylfi Gylfason tvö mörk fyrir Wilhelmshavener sem lagði Melsungen af velli, 32-28.
Úrslit í öðrum leikjum kvöldsins urðu eftirfarandi:
Nordhorn-Kiel 29-37
Magdeburg-Wetzlar 38-27
Hamburg-Göppingen 35-29