Netveitan MySpace hefur efnt til stuttmyndasamkeppni á netinu í samstarfi við bresku sjónvarpsstöðina Film4. Netverjar geta tekið þátt í keppninni, sem heitir MyMovie MashUp, með því að setja stuttmyndir sínar inn á vefsvæði MySpace. Verðlaunin eru ekki af verri endanum en sá sem ber sigur úr býtum fær að launum að leikstýra kvikmynd í fullri lengd sem verður sýnd bæði í kvikmyndahúsum, á vefsvæði MySpace og á sjónvarpsrás Film4.
Gallinn á gjöf Njarðar er hins vegar sá að einungis breskir notendur MySpace geta tekið þátt í keppninni.
Að því er breska ríkissútvarpið hermir munu bæði notendur MySpace-síðunnar og ýmsir sérfræðingar í kvikmyndalistinni, þar á meðal leikstjórarnir Anthony Minghella og Kevin McDonald, velja bestu stuttmyndina.
Stefnt er að því að hefja tökur á kvikmynd í fullri lengd síðar á þessu ári sem sýnd verður sumarið 2008. Gert er ráð fyrir að kvikmyndin muni kosta um 130 milljónir íslenskra króna.
Notendur vefsvæðisins verða virkjaðir ferlið á enda því þeir geta bæði lagt inn hugmyndir að handriti, sótt um að leika í myndinni og komið með ýmsar aðrar ábendingar. Ekkert liggur fyrir um flokkun og efni myndarinnar en það skýrist þegar á líður.