Bandarísk kona lést eftir að brimalda hreif hana með sér úr fjörunni vestan við Reynisfjall við Vík í Mýrdal síðdegis í gær. Konan var 74 ára. Hún var í hópi bandarískra ferðamanna sem gerði stans í Reynisfjöru til að virða fyrir sér brimið. Fólkið gætti ekki að því hversu hættulegt brimið getur verið.
Lögreglan á Hvolsvelli segir mildi að dóttir konunnar, sem stóð við hlið hennar þegar atvikið átti sér stað, hafi komist undan brimskaflinum. Þrír ferðafélagar konunnar óðu út í hafið til að reyna bjarga henni en sneru aftur að landi þegar þeir fundu hve straumþunginn var mikill.
Neyðarkall barst stundarfjórðung í fjögur og var allt tiltækt lið í landi kallað út auk þyrlu Landhelgisgæslunnar. Um klukkustund síðar fundu björgunarsveitarmenn frá Vík í Mýrdal hana skammt frá landi.
Hópurinn var á ferð með Kynnisferðum. Áætluð heimferð fólksins er á mánudag. Fulltrúar Rauða krossins og bandaríska sendiráðsins tóku á móti ferðafélögum konunnar þegar þeir komu til hótels síns í Reykjavík og veittu áfallahjálp.
„Við tókum ákvörðun síðasta þriðjudag um að þarna yrðu sett aðvörunarskilti og björgunarhringur. Ferlið var komið í gang en því miður ekki lengra en þetta," segir Einar Bárðarson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík í Mýrdal. Hann minnir þó á að öllum eigi að vera kunnugt um að hafið geti verið varhugavert og að ekki sé hægt að áfellast nokkra manneskju í þessu máli.
„Við erum skelfingu lostin yfir þessum atburði. Leiðsögumaður okkar hafði varað hópinn við því að fara of nálægt sjónum og stóð rétt hjá. Það gat enginn átt von á svona stórri öldu," segir Sigríður Hallgrímsdóttir, starfsmaður Kynnisferða.
Kona lét lífið þegar brimskafl tók hana

Tengdar fréttir

Ekki hægt að áfellast neinn
„Það er mjög varhugavert að áfellast leiðsögumanninn í máli eins og þessu. Ég veit það að leiðsögumaðurinn varaði fólkið við hættunni. Fólk ber svo ábyrgð á sjálfu sér. Það er ekki auðvelt að ferðast um landið okkar og því fögnum við öllum merkingum sem gætu orðið til að leiðbeina fólki,“ segir Ragnheiður Björnsdóttir, formaður Félags leiðsögumanna.