Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, var eitt sinn inntur eftir því af fréttamanni hvernig hann sæi fyrir sér þróun hlutabréfamarkaða í framtíðinni. „Þeir munu flökta“ var einfalt svar Greenspans. Skemmst er frá því að segja að hann hefur reynst sannspár.
Þessa skemmtisögu sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, á meðan beðið var eftir fyrstu viðskiptum með bandaríska álfyrirtækið Century í Kauphöll Íslands við hátíðlega athöfn á föstudag. Flökt hefur þó ekki verið mikið með gengi bréfa Century í íslensku kauphöllinni enn sem komið er, enda hafa viðskiptin verið róleg til þessa.