Lögregluumdæmum landsins fækkaði um ellefu nú um áramótin og verða nú sjö lykilembætti á landinu en hjá þeim verða sérstakar rannsóknardeildir.
Alþingi samþykkti breytingar á lögreglulögum á síðasta ári og tóku þau gildi nú um áramótin. Lögregluumdæmin voru 26 talsins en eru fimmtán eftir breytingarnar.
Sjö lykilembætti með sérstakar rannsóknardeildir verða á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Eskifirði, Selfossi og á Suðurnesjum. Lögreglustöðvum verður ekki fækkað en lögreglustjórar verða færri.
Á höfuðborgarsvæðinu var Stefán Eiríksson ráðinn lögreglustjóri og er sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri Suðurnesja.
Sýslumenn hinna lykilembættanna verða lögreglustjórar í þeim umdæmum en sýslumenn á minni stöðum innan þeirra munu áfram gegna sínum störfum að fráskildu starfi lögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytniu hafa breytingarnar gengið vel.