Viðskipti innlent

Gunnlaugur Sigmundsson verður framkvæmdastjóri Máttar

Gunnlaugur Sigmundsson.
Gunnlaugur Sigmundsson. MYND/GVA

Gunnlaugur M. Sigmundsson, fyrrverandi alþingismaður og forstjóri Kögunar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjárfestingarfélagsins Máttar. Félagið er í eigu Sjóvár og Glitnis en Gunnlaugur hefur einnig keypt fimm prósenta hlut í því.

Fram kemur í tilkynningu frá Mætti að stefna fyrirtækisins sé að auka verðmæti eigenda sinna með fjárfestingum í skráðum og óskráðum hlutabréfum, bæði í eigin verkefnum og í samstarfi við aðra fjárfesta.

Meðal eigna Máttar má nefna 11,1 prósenta hlut í Icelandair, 12,2 prósenta hlut í BNT og er leiðandi fjárfestir í Kcaj sem er breskt félag sem fjárfestir einkum í smásölurekstri þar í landi. Eigið fé Máttar í dag er ríflega 3,6 milljarðar og hafa eigendur félagsins skuldbundið sig til að auka eigið fé enn frekar.

 

Gunnlaugur var forstjóri Kögunar þangað til í október 2006. Hann var alþingismaður fyrir Vestfjarðarkjördæmi 1995-1995 og forstjóri Þróunarfélags Íslands 1986-1993. Hann var forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins árið 1985, starfsmaður Alþjóðabankans í Washington DC á árunum 1982 til 1984 og fulltrúi og síðar deildarstjóri í Fjármálálaráðuneytinu frá 1974 til 1982.

Gunnlaugur er stjórnarformaður fjölmargra annarra fyrirtækja.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×