Króatar lögðu Spánverja af velli í hreinum úrslitaleik liðanna um toppsætið í milliriðli 2 á HM í Þýskalandi í dag, 29-28. Úrslitin þýða að ef Danir vinna Tékka í kvöld munu þeir fara upp fyrir Spánverja og ná 2. sæti í riðlinum. Ef sú yrði raunin mætast Íslendingar og Danir í 8-liða úrslitum.
Danir mæta Tékkum í kvöld í leik þar sem Tékkar hafa að engu að keppa, enda þegar úr leik. Það má því telja líklegt að Danir fari með sigur af hólmi. Og þar sem Danir sigruðu Spánverja í milliriðlinum munu þeir ávallt verða fyrir ofan Spánverja verði liðin jöfn að stigum - eins og flest bendir til.
Króatar munu að öllum líkindum mæta Evrópumeisturum Frakka í 8-liða úrslitum sem verður sannkallaður risaslagur.
Igor Vori var markahæstur Króata gegn Spánverjum í dag með sjö mörk en Mirza Dzomba skoraði sex. Hjá Spáni skoruðu Roberto Garcia, Iker Romero og Juan Garcia sex mörk hver.