Cristiano Ronaldo vill með engu móti tjá sig um áhuga Real Madrid á sjálfum sér, en spænska stórliðið hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á leikmanninum og er sagt reiðubúið að borga allt að 40 milljónir punda fyrir hann. Ástæðan fyrir þagnarbindindi Ronaldo er skipun frá Sir Alex Ferguson.
Tveir spænskir blaðamenn náðu tali af Ronaldo í gær og spurðu hann ítrekað út í stöðu sína gagnvart Manchester United og Real Madrid. Ronaldo var hins vegar mjög diplómatískur í svörum sínum og gaf ekkert uppi.
"Ég veit af áhuga Real Madrid en ég get ekki talað um þetta. Ég hef rætt málið við Alex Ferguson og Carlos Queroz (aðstoðarmann Ferguson) og þeir hafa bannað mér að tjá mig um Real Madrid. Þið verðið að skilja mína aðstöðu. Ég vill ekki koma mér í vandræði," sagði Ronaldo.
Blaðamennirnir gengu hart að Ronaldo og spurðu hann meðal annars hvort hann væri uppi með sér yfir áhuga Real Madrid. Aftur svaraði Ronaldo á sömu nótum: "Ég er búinn að segja ykkur að ég get ekki tjáð mig um Real Madrid. Þið eigið að virða það," sagði hann.
Þess má einnig geta að forráðamenn Manchester United hafa lýst því yfir að Ronaldo sé ekki til sölu, sama hvaða upphæð er í boði.