Fótbolti

Mourinho: Meiðslin riðluðu öllu skipulagi

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho sagði að meiðsli sinna manna hefðu gert þeim gríðarlega erfitt fyrir í leiknum gegn Porto í Meistaradeildinni í kvöld. John Terry meiddist á ökkla í byrjun leiks og þá þurfti Arjen Robben að fara meiddur af velli eftir að hafa komið inn sem varamaður. Mourinho sagðist ekki geta verið annað en sáttur við jafnteflið þegar tekið væri mið af þessu.

Mourinho var ekki með annan miðvörð á varamannabekk sínum og þurfti því að færa Michael Essien í vörnina þegar Terry meiddist á upphafsmínútunum. "Ég veit ekki hversu alvarleg meiðsli Terry eru, en vandamálið í kvöld var ekki að missa Terry. Vandamálið var að þegar hann fór af velli þurfti ég að breyta öllu skipulagi mínu frá a til ö og því var vel af sér vikið að ná jöfnu á útivelli og ná að skora mark," sagði Mourinho.

"Meiðsli Robben eru í vöðva í lærinu og hann fékk þau væntanlega vegna þess að hann náði ekkert að hita upp áður en ég skellti honum óvænt inn á völlinn," sagði stjórinn og hrósaði markaskoraranum Shevchenko í hástert.

"Hann er að bæta sig gríðarlega þessa dagana og ég er ekki bara að segja það af því hann skoraði mark. Hann er svo vinnusamur fyrir liðið að mér liggur við að segja að hann sé orðinn ómetanlegur fyrir liðið," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×