Fótbolti

Van Buyten: Milan er betra á útivöllum

Daniel van Buyten fór á kostum og skoraði tvö mörk fyrir Bayern í Mílanó í gærkvöldi
Daniel van Buyten fór á kostum og skoraði tvö mörk fyrir Bayern í Mílanó í gærkvöldi NordicPhotos/GettyImages

Belgíski landsliðsmaðurinn Daniel van Buyten var hetja Bayern Munchen í gær þegar liðið náði fræknu 2-2 jafntefli við AC Milan á útivelli í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Van Buyten skoraði bæði mörk þýska liðsins og kom því í vænlega stöðu fyrir síðari leikinn á heimavelli.

"Það var blaut tuska í andlitið á okkur að fá dæmda á okkur vítaspyrnu í lokin, en þegar maður er að spila í jafn stórri keppni og Meistaradeildinni má maður aldrei gefast upp. Við erum orðnir frægir fyrir að skora mörk á lokamínútum leikja og gerðum það aftur að þessu sinni. Það bar vott um þá trú sem menn hafa á sjálfum sér og liðinu í hópnum," sagði Van Buyten, en bætti því við að hans menn væru ekki farnir að hugsa um undanúrslitin þó staðan væri góð fyrir síðari leikinn.

"Við höfum sannarlega væna stöðu fyrir síðari leikinn vegna markanna tveggja á útivelli, en ég myndi ekki ganga svo langt að segja að við værum þó endilega sigurstranglegri. Ég er ekki frá því að Milan sé betra lið á útivöllum en heima, en þeir verða þó að vinna okkur í Munchen og við vitum að okkur nægir að halda hreinu til að komast áfram," sagði hetja þýska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×