Körfubolti

Stephen Jackson verður ekki stöðvaður

Stephen Jackson er einn villtasti leikmaður NBA deildarinnar
Stephen Jackson er einn villtasti leikmaður NBA deildarinnar NordicPhotos/GettyImages

Villingurinn Stephen Jackson lék vel með liði Golden State í fyrrinótt þegar liðið náði mjög óvænt 2-1 forystu gegn Dallas í úrslitakeppni NBA. Jackson hefur verið duglegur við að koma sér í vandræði undanfarin ár og var sektaður um rúmar þrjár milljónir króna fyrir ruddalega framkomu í leik tvö.

Dálkahöfundurinn Peter Vescey hjá New York Post skrifaði um Jackson eftir að hann var rekinn úr húsi gegn Dallas og lét skömmunum og fúkyrðunum rigna yfir dómara. Vescey hafði það eftir einum af fyrri yfirmönnum Jackson hjá ónefndu NBA liði að þegar hann hafi verið beðinn um að hafa sig hægan, hafi hann svarað; "Ég vildi að ég gæti lofað þér að ég ætli að haga mér vel framvegis - en ég get það ekki. Ég hætti þessu ekki og ræð ekkert við þetta. Þið verðið að stöðva mig," var haft eftir Jackson, sem á enn eftir að mæta fyrir rétt fljótlega vegna atviks á súlustað í Indianapolis fyrir nokkrum mánuðum þar sem hann greip til vopna og skaut út í loftið.

Jackson fór svo á kostum í viðtali við Dallas Morning News í gær þar sem blaðamaður spurði hann út í ummæli Charles Barkley hjá ESPN sjónvarpsstöðinni. Barkley líkti Stephen Jackson þar við ruðningskappann umdeilda Terrell Owens hjá Dallas Cowboys. Jackson var ekki lengi að svara.

"Ég hlusta ekki á Charles Barkley. Ég kippi mér ekki upp við gagnrýni frá mönnum sem hafa ekki unnið meistaratitil. Ég á einn slíkan sjálfur," sagði Jackson hæðnislega.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×