Körfubolti

Auðvelt hjá New Jersey

Vince Carter fær ekki góðar viðtökur í Toronto í næsta leik - en Kanadamennirnir þurfa nú á kraftaverki að halda til að vinna einvígið
Vince Carter fær ekki góðar viðtökur í Toronto í næsta leik - en Kanadamennirnir þurfa nú á kraftaverki að halda til að vinna einvígið NordicPhotos/GettyImages

New Jersey Nets er komið með þægilega 3-1 forystu gegn Toronto Raptors í úrslitakeppni NBA eftir auðveldan sigur í fjórða leik liðanna í New Jersey í nótt 102-81. New Jersey valtaði yfir mótherja sína strax í byrjun og leiddi 56-37 í hálfleik á bak við annan stórleik frá Jason Kidd og Vince Carter.

Gestirnir frá Toronto virkuðu hreinlega úti á túni í leiknum og áttu aldrei möguleika. Næsti leikur í einvíginu fer fram í Toronto, en eins og staðan er núna er erfitt að sjá Kanadaliðið koma spennu í einvígið á ný. Vince Carter skoraði 27 stig fyrir Nets í nótt og hirti auk þess 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar á aðeins 30 mínútum. Jason Kidd skoraði 17 stig, hirti 8 fráköst, gaf 13 stoðsendingar og hitti úr 5 af 6 þristum sínum. Richard Jefferson skoraði 23 stig.

Andrea Bargnani skoraði 16 stig fyrir Toronto og þeir Chris Bosh og TJ Ford 13 hvor. Bosh hirti auk þess 11 fráköst, en hann hefur ekki náð sér á strik í síðustu tveimur leikjum og hefur valdið miklum vonbrigðum í einvíginu. Þetta var næst stærsti sigur New Jersey í úrslitakeppni í sögu félagsins, en sigurinn hefði ef til vill verið miklu stærri ef bæði lið hefðu ekki hvílt lykilmenn í fjórða leikhluta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×