Körfubolti

San Antonio vann fyrsta leikinn

San Antonio er að spila vel þessa dagana og þykir líklegast til að verða meistari.
San Antonio er að spila vel þessa dagana og þykir líklegast til að verða meistari.

San Antonio vann fyrsta leikinn gegn Utah í úrslitum Vesturdeildar NBA-deildarinnar í nótt, 108-100. Tim Duncan gegndi lykilhlutverki í sigri San Antonio, en fjölmiðlar vestra segja hann sjaldan eða aldrei hafa spilað betur á sínum ferli.

Duncan skoraði 27 stig í nótt, en hirti auk þess 10 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og blokkaði tvö skot. Manu Ginobili skilaði einnig sínu með 23 stigum og 10 stoðsendingum og þá skoraði Tony Parker 21 stig í leiknum. Hjá Utah átti Deron Williams frábæran leik og skoraði 34 stig.

Sigur San Antonio var aldrei í hættu en liðið var með 19 stiga forystu í hálfleik og náði auk þess 18 stiga forskoti í 4. og síðasta leikhlutanum. Utah spilaði þó mun betur í síðari hálfleik en í þeim fyrri og sýndi þá að liðið á í fullu tré við San Antonio á góðum degi.

“Í næsta leik munu þeir verða betur undirbúnir. Við megum eiga von á sömu frammistöðu í næsta leik hjá þeim eins og þeir sýndu í síðari hálfleik. Við verðum að vera tilbúnir að gera enn betur en það,” sagði Tony Parker í leikslok.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×