Viðskipti innlent

Velta í dagvöruverslun eykst um 8,8 prósent

Keypt í matinn. Rannsóknasetur verslunarinnar segir fátt benda til að draga sé úr einkaneyslu.
Keypt í matinn. Rannsóknasetur verslunarinnar segir fátt benda til að draga sé úr einkaneyslu.

Velta í dagvöruverslun jókst um 8,8 prósent í maí á föstu verðlagi samanborið við sama tíma í fyrra. Á breytilegu verðlagi nam hækkunin hins vegar 13,2 prósentum, samkvæmt smásöluvísitölu Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst.

Sambærileg aukning varð í sölu áfengis milli mánaðanna apríl og maí, en hún nam 8,6 prósentum á föstu verðlagi.

Rannsóknarsetrið segir enn sem fyrr mun meiri sveiflur í sölu fata- og skóverslunar milli mánaða en í dagvöruverslun. Velta í fataverslun var 16,6 prósentum meiri í maí en í mánuðinum á undan og í skóverslun var aukningin 30,9 prósent á milli mánaða. Ástæðan er að einhverju leyti sú að fleiri verslunardagar voru í maí en í apríl auk þess sem vorið er sá tími sem landsmenn endurnýja föt- og skó.

Þá bendir Rannsóknasetrið á að í hagspám hafi verið gert ráð fyrir að dragi úr vexti einkaneyslu. Þess sjáist ekki merki ef litið er til veltuaukningar í smásöluverslun sem nemur sjö prósentum frá áramótum.

Ekki virðist heldur hafa dregið úr einkaneyslu þegar litið er til greiðslukortaveltu, sem var 11 prósentum meiri á fyrstu fjóra mánuðum ársins samanborið við síðasta ár.

Bent er á að athyglisvert sé að nýskráning bíla jókst um 66 prósent á milli mánaðanna apríl og maí. Þar sem kaupmáttur launa haldi áfram að aukast samkvæmt mælingu Hagstofunnar megi ætla að sölutölur í verslun haldi áfram að stíga á næstunni, að sögn Rannsóknasetur verslunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×