Viðskipti innlent

Afkoma Icelandic Group undir væntingum

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group, segir afkomu félagsins undir væntingum.
Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group, segir afkomu félagsins undir væntingum.

Afkoma Icelandic Group dróst nokkuð saman á milli ára. Hagnaðurinn nam 2,2 milljónum evra, jafnvirði rúmar 208 milljónir króna, á fyrri hluta árs. Það tapaði hins vegar 84 þúsund evrum á öðrum ársfjórðungi samanborið við tæplega 1,3 milljóna evra hagnað á sama tíma í fyrra. Björgólfur Jóhannsson forstjóri félagsins, segir afkomuna ekki í samræmi við væntingar. 

Í uppgjöri Icelandic Group kemur fram að sala hafi numið 729,2 milljónum evra á fyrri hluta ársins. Þar af nam salan á öðrum ársfjórðungi 344 milljónum evra, sem er samdráttur frá sama tíma í fyrra en þá nam salan tæpum 363 milljónum evra.

Hagnaður fyrir skatta, vexti og afskriftir (EBITDA) nam 18,5 milljónum evra á fyrri helmingi ársins, þar af 4,3 á öðrum ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn rúmum 10,9 milljónum evra.

Í uppgjörinu kemur sömuleiðis fram að handbært fé Icelandic Group frá rekstri fyrir skatta og vexti hafi numið 29,7 milljónum evra og hafi arðsemi eigin fjár numið 2,5 prósentum. Eiginfjárhlutfall nam 19,8 prósentum.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandic Group, segir í tilkynningu, að afkoman á öðrum ársfjórðungi hafi ekki verið í samræmi við væntingar. Skrifist það á tafir á flutningi á framleiðslueiningum milli fyrirtækja Icelandic Group í Evrópu. Hann gerir ekki ráð fyrir því að hagræðing fyrirtækisins sem átti að koma fram á síðasta fjórðungi muni ekki gera það fyrr en á seinni helmingi ársins.

Sala á síðari helmingi ársins er samkvæmt hefð meiri en á fyrri árshelmingi en gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður verði um 35 milljónir evra á seinni hluta ársins en 54 milljónir á árinu öllu, að því er fram kemur í uppgjörinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×