Körfubolti

Kirilenko vill fara frá Utah

Andrei Kirilenko gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Utah Jazz
Andrei Kirilenko gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Utah Jazz NordicPhotos/GettyImages

Rússneski landsliðsmaðurinn Andrei Kirilenko hefur farið þes á leit við forráðamenn Utah Jazz að verða skipt frá félaginu. Kirilenko var kjörinn verðmætasti leikmaðurinn á nýafstöðnu Evrópumóti landsliða, en átti vægast sagt ömurlegt tímabil með NBA liðinu síðasta vetur.

Kirilenko greindi frá því í viðtali á rússneskri vefsíðu í gær að hann hefði beðið forráðamenn Utah Jazz að skipta sér í burtu frá félaginu fyrir tveimur vikum, en þeir hefðu ekkert látið heyra frá sér og það sé dæmigert fyrir framkomu þeirra í sinn garð.

Nokkuð hefur verið skrifað um Kirilenko og hugsanlega för hans frá Utah í sumar, en nú þegar ljóst er að hann hefur beðið um að fara frá félaginu er ljóst að staða forráðamanna liðsins verður erfið þegar kemur að því að losna við hann.

Hann er með gríðarlega háan samning og markaðsvirði þessa fjölhæfa leikmanns hefur aldrei verið lægra eftir að hann átti eitt sitt slakasta tímabil á ferlinum með Utah í fyrra. Þar náði dramatíkin hámarki þegar Kirilenko brast í grát eftir leik liðsins í úrslitakeppninni.

Hvað sem öðru líður er ljóst að það er fullreynt fyrir Rússann að spila fyrir Jerry Sloan, þar sem leikmaður af hans kalíberi passar einfaldlega ekki inn í hugmyndafræði þjálfarans um fast skipulag og agaðan leik.

Smelltu hér til að sjá upplýsingar og tölfræði um Andrei Kirilenko.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×