Fótbolti

Celtic bíður milli vonar og ótta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bera þurfti Dida af velli í gær.
Bera þurfti Dida af velli í gær. Nordic Photos / AFP

Forráðamenn Glasgow Celtic bíða nú milli vonar og ótta um hvort Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, refsi félaginu fyrir árásina á Dida í gær.

Scott McDonald tryggði Celtic 2-1 sigur á AC Milan í Meistaradeild Evrópu með marki á 89. mínútu.

Skömmu síðar hljóp stuðningsmaður Celtic inn á vellinn og virtist löðrunga Dida, markvörð AC Milan.

Enskir miðlar eru þó í vafa um að „höggið“ sem Dida fékk hafi verið eins alvarlegt og hann sjálfur vildi af láta. Bera þurfti Dida af velli eftir að hann féll í grasið með miklum tilburðum.

Zeljko Kalac kom inn á fyrir Dida á lokamínútu leiksins og varði mark Milan síðustu sekúndurnar.

Forráðamenn AC Milan munu þó ekki kvarta formlega undan atvikinu þar sem það hafði ekki áhrif á úrslit leiksins.

Þó gæti verið að dómari leiksins, Markus Merk, eða eftirlitsmaður UEFA greini frá atvikinu í skýrslu sinni.

Árið 1984 þurfti Celtic að endurtaka leik sinn við Rapid Vín í Evrópukeppni bikarhafa. Celtic var undir eftir fyrri leik liðanna, 3-1, og var með 3-0 forystu á heimavelli sínum.

Þá var flösku kastað að leikmanni austurríska liðsins sem féll í grasið með miklum tilburðum þó svo að flaskan hafi ekki hæft hann.

Knattspyrnusamband Evrópu úrskurðaði að endurtaka þyrfti leikinn í að minnsta kosti hundrað mílna fjarlægð frá Glasgow.

Celtic tapaði endurtekna leiknum sem fór fram á Old Trafford.

Briann Quinn, stjórnarformaður Celtic, hefur kvatt UEFA til að rannsaka tilburði Dida og sakaði hann um að hafa ýkt viðbrögð sín mikið.

Eftir löðrunginn gerði Dida sig líklegan til að elta manninn en ákvað svo að láta sig detta í grasið. Hann var borinn af velli á börum og hélt kælipoka við andlit sitt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×