Pittpass.com greinir frá því í dag að samkvæmt sínum heimildum að áfrýjunardómstóll Alþjóða aksturssambandsins hafi hafnað áfrýjun McLaren liðsins. Samkvæmt því heldur Kimi Raikkönen heimsmeistaratitli sínum.
McLaren kærði niðurstöðu dómara í brasilíska kappakstrinum um að dæma ekki ökumenn Williams og BMW úr keppni á mótinu fyrir að nota kælt bensín á bílana sína.
Hefði það verið niðurstaðan hefði Lewis Hamilton færst ofar í röðinni og þar með fengið fleiri stig í stigakeppni ökuþóra. Hann lenti í sjöunda sæti í keppninni og samtals einu stigi á eftir Kimi Raikkönen, sem vann keppnina í Brasilíu.
Það er tekið skýrt fram í fréttinni að þetta sé ekki staðfest niðurstaða dómstólsins en að heimildir síðunnar séu mjög áreiðanlegar.
Beðið hefur verið eftir niðurstöðu dómstólsins í dag.