Formúla 1

McLaren tapaði

NordicPhotos/GettyImages

Lið McLaren í Formúlu 1 tapaði í dag áfrýjun sinni gegn úrslitunum í lokakappakstrinum í Brasilíu og því er Kimi Raikkönen loksins staðfestur heimsmeistari ökuþóra.

Þar með er ljóst að Lewis Hamilton fær ekki heimsmeistaratitilinn eins og forráðamenn McLaren höfðu vonað ef áfrýjun þeirra hefði náð fram að ganga. 

McLaren kærði niðurstöðu dómara í brasilíska kappakstrinum um að dæma ekki ökumenn Williams og BMW úr keppni á mótinu fyrir að nota kælt bensín á bílana sína.

Hefði það verið niðurstaðan hefði Lewis Hamilton færst ofar í röðinni og þar með fengið fleiri stig í stigakeppni ökuþóra. Hann lenti í sjöunda sæti í keppninni og samtals einu stigi á eftir Kimi Raikkönen, sem vann keppnina í Brasilíu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×