Körfubolti

Phil Jackson: Shaq er ekki búinn

Jackson og O´Neal voru góðir saman hjá Lakers
Jackson og O´Neal voru góðir saman hjá Lakers NordicPhotos/GettyImages

Phila Jackson, fyrrum þjálfari Shaquille O´Neal hjá LA Lakers, er ósammála þeim fullyrðingum margra að miðherjinn sé búinn að vera sökum aldurs.

Jackson vann á sínum tíma þrjá meistaratitla með O´Neal hjá Lakers, en tröllið hefur ekki byrjað vel á leiktíðinni með Miami í haust og blaðamenn vestanhafs eru margir farnir að afskrifa þann stóra.

Jackson er ekki sammála þessu en segist skilja kollega sinn Pat Riley hjá Miami og þá ákvörðun hans að skipta O´Neal af velli eftir innan við mínútu í leik á dögunum - þar sem Riley þótti sá stóri ekki standa sig í varnarleiknum.

"Var hann ekki að spila annan leikinn sinn á tveimur dögum? Og Riley leyfði honum ekki að hita upp," sagði Jackson glottandi. "Ég held að Riley hafi bara verið að senda honum smá skilaboð. Þetta verður örugglega betra í framtíðinni."

Jackson segist sjálfur ekki hafa notað viðlíka aðferðir þegar hann þjálfaði O´Neal á sínum tíma, en kom honum í skemmtilegan bobba í eitt skiptið.

"Ég spurði hann einu sinni í leikhléi hvort hann vissi hvað hefði verið ótrúlegasta metið sem Wilt Chamberlain setti á ferlinum. Hann giskaði á að það hefði verið þegar Wilt var með 50 stig að meðaltali eina leiktíðina - en það var ekki rétt svar.

"Ég sagði honum þá að það hefði verið þegar Wilt spilaði allar mínúturnar í hverjum einasta leik nema tvær - allt tímabilið. Ég spurði Shaq hvort hann héldi að hann gæti gert það sjálfur, maðurinn sem kallaði sjálfan sig Ofurmennið? Hann sagði já - og ég lét á það reyna. Hann spilaði nánast hverja mínútu í fjóra eða fimm leiki í röð en eftir það taldi hann nóg komið af svo góðu," sagði Jackson. "Hann komst nú reyndar í fínt form eftir þetta og mér fannst hann bregðast ágætlega við áskoruninni."

Jackson vill ekki kaupa það að O´Neal sé búinn að vera. "Ég sá að það var einhver að reyna að halda útför hans í blöðunum um daginn og binda enda á feril hans, en ég held að hann eigi eftir að standa sig ágætlega í vetur," sagði hinn nífaldi NBA meistari.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×