Gengi hlutabréfa í bandarísku flugrekstrarsamstæðunni AMR, móðurfélagi flugfélagsins American Airlines, eins stærsta flugfélags Bandaríkjanna, hrundi á þarlendum hlutabréfamarkaði í gær og fór í sitt lægsta gildi á árinu.
FL Group flaggaði kaupum á stórum hlut í AMR undir lok síðasta árs og átti í enda síðasta mánaðar rúman níu prósenta hlut í félaginu. FL Group seldi mestan hluta eignarinnar um mánaðamótin en heldur eftir um 1,1 prósenti.
Gengið féll um rúm níu prósent og fór í 17,81 dal við lokun viðskipta í Bandaríkjunum í gær. Lægst fór það hins vegar í 17,60 dali og hafði ekki verið lægra síðan í nóvember árið 2005. Hæst fór það hins vegar í 40,66 dali á hlut í febrúar. Gengi bréfa í flugrekstrarsamstæðunni hefur því fallið um rúm 56 prósent frá þeim tíma.
Markaðsvirði AMR stendur í 4,44 milljörðum dala en það jafngildir því að eignarhlutur FL Group stendur í um tæpum þremur milljörðum íslenskra króna.