Ljóst er að margur makinn var pirraður um páskahelgina. Ástæðan er sú að lykilstarfsmenn í Landsbankanum og Glitni voru kallaðir heim úr fríum erlendis. Mikið lá á að klára ákveðin mál innan bankanna og fóru margar sögusagnir á flug varðandi hlut FL Group í Glitni. Þó að einhver bið verði á að hreyfing komist á þann eignarhlut voru lögfræðingar innan Glitnis að störfum um páskahelgina. Sömu sögu var að segja um lögfræðinga hjá Landsbankanum sem gerðu hlé á skíðaferðum með fjölskyldunni áður en brekkurnar voru sigraðar á nýjan leik.
Nýklipptur bankastjóriDavíð Oddsson seðlabankastjóri var öryggið uppmálað þegar hann svaraði fyrir stýrivaxtahækkun bankans í gær í hádegisfréttum Stöðvar 2. Hann sagði vaxtahækkunina í gær einhverja þá mestu sem Seðlabankinn hefði farið í í einu lagi síðan núverandi skipan peningamála var tekin upp árið 2001. Menn hefðu því þurft að hafa drjúgar ástæður fyrir henni. Athugulir sjónvarpsáhorfendur tóku eftir að Davíð var nýklipptur og hafði stytt sitt hrokkna hár nokkuð mikið. Höfðu einhverjir á orði að kallinn liti vel út þrátt fyrir spennuna sem hefur ríkt á mörkuðum upp á síðkastið.