Íslenski boltinn

Ásgeir: Stoltur og ánægður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásgeir Sigurvinsson.
Ásgeir Sigurvinsson.

„Það voru tíu menn að berjast um þennan titil og auðvitað er maður bara stoltur og ánægður. Það er mikill heiður að fá þessa nafnbót því þetta gat farið á alla vegu," sagði Ásgeir Sigurvinsson sem kosinn var besti knattspyrnumaður Íslands.

„Ég vissi alltaf að ég ætti góðan möguleika eins og margir aðrir. Ég vissi ekkert fyrir kvöldið hver yrði fyrir valinu og er mjög ánægður," sagði Ásgeir sem hrósar því framtaki að framleiða þætti um bestu knattspyrnumenn landsins.

„Þetta er mjög gott framtak og mikil vinna lögð við þessa þætti. Efni sem geymist fyrir komandi kynslóðir," sagði Ásgeir.

„Það eru margir úti í heimi sem hafa komið að máli við mig og talað um að ótrúlegt sé að svo lítil þjóð geti framleitt eins marga góða knattspyrnumenn og raun ber vitni. Við eigum leikmenn sem hafa verið í fremstu röð í Evrópu," sagði Ásgeir.

„Við höfum auðvitað aldrei komist inn á stórmót en það er ekki einu sinni hægt að ætlast til þess að við gerum það. Við erum of smá þjóð til þess," sagði Ásgeir. En er íslenskum fótbolta að fara fram?

„Örugglega. Aðstæður eru orðnar betri og það eru nýjar kynslóðir að koma upp. Það má ekki gleyma því að það eru þjóðir út í heimi sem eru farnar að nálgast okkur eins og við vorum farin að nálgast stærri þjóðir hér áður fyrr. Þetta er lítið land og það er erfitt að ala upp gott fótboltalið."


Tengdar fréttir

Ásgeir Sigurvinsson besti knattspyrnumaður Íslands

Ásgeir Sigurvinsson er besti knattspyrnumaður Íslands. Þetta var tilkynnt í veislu sem stendur yfir á Laugardalsvelli í kjölfar þáttaraðarinnar 10 bestu sem sýnd var á Stöð 2 Sport í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×