Íslenski boltinn

Pétur kvaddi með bikar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viktor Bjarki Arnarsson og Pétur Marteinsson eftir leikinn.
Viktor Bjarki Arnarsson og Pétur Marteinsson eftir leikinn. Mynd/E. Stefán
Pétur Marteinsson lék í dag sinn síðasta leik á ferlinum er KR varð bikarmeistari í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Fjölni í úrslitaleiknum.

Pétur hefur staðið sig mjög vel í sumar í vörninni hjá KR sem hélt hreinu í dag. Hann sagði eftir leik að þetta væri hans síðasti leikur en vildi þó ekki útiloka neitt hvað framhaldið varðar.

„Ég ætla samt ekki að loka á allar dyr en ég var búinn að hugsa mér fyrir mótið að þetta yrði mitt síðasta sumar. Þetta er líka búið að vera gríðarlega skemmtilegt mót og það var góður stígandi í okkar liði eftir að við byrjuðum illa í vor."

„Við náðum aldrei að blanda okkur í titilbaráttuna í deildinni og ætluðum því að taka bikarinn föstum tökum. Ég er því virkilega sáttur við niðurstöðuna."

Hann sagðist einnig hafa verið sáttur við sína frammistöðu í sumar.

„Ég fékk samt ekki að æfa eins mikið og ég vildi en líkaminn hefur ekki verið upp á sitt besta," sagði hann.

„Mér fannst við sterkari aðilinn í þessum leik en það er mjög erfitt að eigast við þetta Fjölnislið. En sem betur fer náðum við að koma boltanum í netið undir lokin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×