Íslenski boltinn

ÍBV tapaði stigum fyrir norðan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leiknir og KA fengu bæði stig í kvöld.
Leiknir og KA fengu bæði stig í kvöld. Mynd/Leiknir.com
Topplið ÍBV í 1. deild karla tapaði í kvöld fyrir KA á Akureyri, 2-1, er átjánda umferð deildarinnar kláraðist með fjórum leikjum.

Elmar Dan Sigþórsson kom KA yfir með marki undir lok fyrri hálfleiks en Ingi Rafn Ingibergsson jafnaði metin á 76. mínútu. Steinn Gunnarsson skoraði sigurmark KA þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

ÍBV er nú með þriggja stiga forskot á Selfoss sem vann í kvöld 4-1 sigur á Njarðvík. Selfyssingar eru einnig komnir með fimm stiga forskot á Stjörnuna sem er í þriðja sæti deildarinnar með 35 stig eftir að hafa gert markalaust jafntefli við Víking frá Ólafsvík á útivelli í kvöld. ÍBV er með 43 stig og Selfoss 40.

Þá gerðu Víkingur, Reykjavík, og Leiknir 1-1 jafntefli. Kári Einarsson kom Leikni yfir á 9. mínútu en Skúli Jónsson jafnaði metin á 53. mínútu.

Leiknir er nú þremur stigum fyrir ofan Njarðvík sem er í næstneðsta sæti deildarinnar með fjórtán stig. KS/Leiftur er á botninum ellefu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×