Handbolti

Naumur sigur Rússa á Egyptum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexey Rastvortsev skoraði sigurmark Rússa í gær.
Alexey Rastvortsev skoraði sigurmark Rússa í gær. Nordic Photos / AFP

Rússland vann í morgun nauman sigur á Egyptalandi, 28-27, í B-riðli í keppni í handbolta karla á Ólympíuleikunum í Peking.

Liðin leika með Íslandi í riðli en Ísland vann Rússa í fyrstu umferð riðlakeppninnar, 33-31. Egyptar náðu á sama tíma jafntefli við Evrópumeistara Danmerkur.

Rússar höfðu undirtökin lengst af í leiknum en staðan var jöfn í hálfleik, 14-14. Þegar tólf mínútur voru eftir höfðu Rússar fjögurra marka forskot, 25-21, en Egyptar náðu á næstu átta mínútum að jafna metin í stöðunni 26-26.

Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi en Rússar héldu í sókn þegar rúmar 20 sekúndur voru til leiksloka og staðan 27-27. Alexey Rastvortsev tryggði þeim sigur þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.

Rastvortsev var markahæstur með Rússa með átta mörk. Ahmed El Ahmar skoraði flest mörk Egypta, tíu talsins. Hussein Zaky skoraði fimm mörk.

Hinir tveir leikirnir í B-riðli fara fram síðar í dag. Klukkan 11.00 mætast Suður-Kórea og Danmörk og svo klukkan 12.45 mætast Ísland og Þýskaland.

Tveir leikir fóru fram í A-riðli í nótt. Króatía vann Brasilíu, 33-14, og Frakkland vann Kína, 33-19.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×