Fótbolti

Benitez: Torres fór af velli vegna meiðsla

NordcPhotos/GettyImages

Rafa Benitez stjóri Liverpool var að vonum súr með tapið gegn Chelsea í Meistaradeildinni í kvöld. Hann segir sína menn ekki hafa verið langt frá takmarki sínu.

"Við spiluðum sérstaklega vel í síðari hálfleik og áttum skilið að skora og svo vorum við mikið betri í framlengingunni. Svo skoruðu þeir og þegar annað markið þeirra kom í framlengingunni var þetta auðvitað erfitt," sagði Benitez og sagðist hafa skipt Fernando Torres af velli af því hann hefði meiðst aftan í læri.

Hann var líka spurður út í meinta vítaspyrnu sem leikmenn Liverpool vildu fá eftir að Didier Drogba felldi Sami Hyypia í teignum. "Leikmennirnir sögðu að þetta hefði verið víti, en það er ekkert við því að gera núna," sagði Spánverjinn.

Benitez vildi ekkert tjá sig um deilur sínar við Didier Drogba í fjölmiðlum, en eins og þeir vita sem sáu leikinn, var það Fílabeinsstrendingurinn sem átti stóran þátt í sigri Chelsea með tveimur mörkum.

"Ég held að gagnrýni mín hafi ekki haft sérstök áhrif á Drogba, nei. Þegar menn eru að spila til undanúrslita í Meistaradeildinni, hafa þeir ekki tíma til að hugsa um neitt annað," sagði Benitez.

George Gillett, annar eigenda Liverpool, var inni í búningsklefanum eftir leikinn og Benitez var spurður hvað Bandaríkjamaðurinn hefði sagt við leikmennina.

"Hann var aðallega að hughreysta þá og óskaði þeim til hamingju með góðan leik, því þeir börðust eins og ljón og gáfust aldrei upp," sagði Benitez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×