Handbolti

Serdarusic að taka við norska landsliðinu?

Zvonimir Serdarusic
Zvonimir Serdarusic NordicPhotos/GettyImages

Norskir fjölmiðlar segja nú aðeins tímaspursmál hvenær handknattleikssambandið þar í landi gangi frá ráðningu landsliðsþjálfara.

Efstur á lista sambandsins ku vera hinn sigursæli Zvonimir Serdarusic sem áður stýrði þýska stórliðinu Kiel til 11 meistaratitla. "Noka" eins og hann er kallaður er 58 ára gamall og hefur unnið 25 titla á ferlinum.

Serdarusic og Svíinn Robert Hedin eru efstir á óskalista norska sambandsins, en Aftenposten segir líklegt að Bosníumaðurinn verði ráðinn á næstu dögum þar sem hann hafi þegar gengið að samningstilboði sambandsins og sé klár í að stýra liðinu fram yfir ÓL 2012.

Gangi Norðmennirnir frá samningi við Serdarusic, er þó óvíst að hann muni stýra liðinu gegn okkur Íslendingum í undankeppni EM í næsta mánuði, því hann mun vera á leið í mikla hnéaðgerð.

Serdarusic er sagður mikill Noregsvinur og ku fara þangað 1-2 sinnum á ári til að veiða lax.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×