Skoðun

Að loknu kennaraþingi

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir skrifar
Hvernig er hægt að þjónusta félagsmenn þannig að þeir upplifi styrk í því að vera í stéttarfélagi? Hvaða þjónustu vilja félagsmenn fá hjá stéttarfélögum? Það þarf að vera á hreinu hvert hlutverk stéttarfélagsins er í hugum félagsmanna. Er það að berjast fyrir bættum kjörum eins og forðum eða er hlutverkið breytt og félagsmaðurinn sækist eftir þjónustu sem hefur jafnvel ekki verið skilgreind?

Ef fólk er sammála um að grundvöllur stéttarfélagsins sé að gæta hagsmuna og réttinda félagsmanna og fara með samningsrétt um kaup og kjör þarf að huga vel að því að félagið sé í takt við grasrótina.Forystan tekur að sér að leiða stéttarbaráttuna en þeir sem gegna lykilhlutverki í að tengja hana og grasrótina eru trúnaðarmenn.

Á þingi Kennarasambandsins sem haldið var dagana 9. -11. apríl lagði ég fram tillögu um þeir sem taki að sér trúnaðarstörf fyrir KÍ fái viðeigandi félagsmálafræðslu og þjálfun. Tillagan var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Um er að ræða fræðslu sem nýtist öllum sem veljast til starfa fyrir Kennarasamband Íslands og er sniðin að hverjum einstaklingi fyrir sig. Kennarasambandið leggur til hugmyndafræði og þekkingu en þarf jafnframt að leita fanga út fyrir stéttarfélagið til að skoða það sem er vel gert annars staðar.

Við þurfum að gera feiknarlegt átak í að fræða trúnaðarmenn þannig að þeir geti tekið þátt í að sinna því uppbyggingarstarfi sem þarf að fara fram innan hvers félags fyrir sig. Við þurfum að:

• Hlusta á grasrót kennarasamfélagsins.

• Komast að því hvert einstakir félagsmenn vilja að félagið stefni.

• Tala saman um félagið okkar.

• Sjá fyrir okkur, sem heild, hvert hlutverkið sé.

Þessum markmiðum náum við aðeins með sameiginlegu átaki allra aðildarfélaga Kennarasambands Íslands. Þetta eru markmið sem þingið setti sér með því að samþykkja tillögu um félagsmálafræðslu til allra sem taka að sér trúnaðarstörf fyrir KÍ.

Höfundur er formaður Kennarafélags Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×