Körfubolti

Vissi að ég ætti eftir að eiga stórleik í kvöld

Gunnar Einarsson hlakkar mikið til að mæta Snæfelli í úrslitunum
Gunnar Einarsson hlakkar mikið til að mæta Snæfelli í úrslitunum Mynd/Vilhelm

"Við bara rifum okkur upp á rassgatinu og gerðum þetta eins og karlmenn núna," sagði Gunnar Einarsson, hetja Keflvíkinga í oddaleiknum í kvöld.

Gunnar var stigahæstur Keflvíkinga með 23 stig, hitti vel og dreif sína menn áfram á báðum endum vallarins. Í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn sagðist hann blása á fréttir af óeiningu í herbúðum liðsins.

"Það er bara bull. Það er flottur mórall í þessu liði og gaman að koma á hverja einustu æfingu," sagði Gunnar.

Hann segir Keflavíkurliðið hafa lagt upp með ranga hernaðaráætlun gegn ÍR í upphafi einvígisins.

"Við vorum að spila vitlaust á þá þarna í byrjun og spila svæðisvörn, en við skiptum alveg í maður á mann í síðustu þremur leikjunum og árangurinn liggur í augum uppi," sagði Gunnar.

Hann segir stemminguna í Sláturhúsinu í kvöld hafa verið rafmagnaða fyrir leikinn og sagðist hafa fundið í hvað stefndi.

"Ég fann það um leið og ég gekk inn í húsið í kvöld að ég ætti eftir að eiga stórleik. Þetta var bara einn af þessum dögum þar sem allt er ofaní. Siggi sýndi mér traust í síðustu þremur leikjum og ég er enn í fullu fjöri - þið sáuð hvernig það fór í kvöld," sagði Gunnar brattur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×