Íslenski boltinn

Ísland tapaði fyrir Wales

Mynd/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði 1-0 fyrir Wales í æfingaleik þjóðanna á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið lék á köflum ágætlega en fékk á sig blóðugt mark á lokamínútu fyrri hálfleiks og það réði úrslitum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Pálmi Rafn Pálmason átti fyrsta færi íslenska liðsins strax eftir 10 mínútur og fékk svo dauðafæri tveimur mínútum síðar.

Walesverjar fengu ekki færi fyrr en eftir hálftímaleik og virkuðu daufir í fyrri hálfleiknum. Skömmu fyrir leikhlé misstu þeir fyrirliða sinn Carl Fletcher meiddan af velli og í hans stað kom hinn ungi Ched Evans, leikmaður Manchester City. Hann var ekki lengi að stimpla sig inn og skoraði það sem reyndist sigurmark Wales rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Hann fékk sendingu fyrir markið og læddi boltanum fram hjá Kjartani Sturlusyni með lúmskri hælspyrnu í sínum fyrsta landsleik.

Síðari hálfleikurinn var frekar daufur en rúmlega 5300 áhorfendur skemmtu sér þó ágætlega í stúkunni.

Walesverjar hresstust heldur í síðari hálfleiknum og nokkuð meira jafnvægi kom í leik liðsins eftir að Craig Bellamy kom inn sem varamaður hjá Wales, en hann hefur verið meiddur undanfarnar vikur.

Það fór svo að lokum að Wales hafði 1-0 sigur og átti aðeins eitt skot á markrammann hjá íslenska liðinu.

Segja má að frammistaða íslenska liðsins hafi verið ágæt í kvöld, en liðið hafði ekki heppnina með sér eins og svo oft áður. Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari getur þó eflaust huggað sig við að hafa fengið að sjá til margra af yngri og efnilegri landsliðsmanna sinna í kvöld, enda var leikurinn ekki síst ætlaður til að sjá hverjir koma til greina hjá honum þegar næsta undankeppni hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×