Körfubolti

Jordan rekinn frá Washington

Eddie Jordan var á sínu sjötta ári með Wizards
Eddie Jordan var á sínu sjötta ári með Wizards NordicPhotos/GettyImages

Eddie Jordan var í dag rekinn úr starfi sem þjálfari Washington Wizards í NBA deildinni. Hann er annar þjálfarinn á tveimur dögum sem er látinn taka pokann sinn í deildinni.

Lið Washington hefur verið þjakað af meiðsladraugnum í vetur líkt og á síðustu árum og hafði aðeins unnið einn af fyrstu ellefu leikjum sínum það sem af er móts.

Þetta er metjöfnun á verstu byrjun í sögu félagsins, en það hefur einu sinni áður byrjað 1-10 og það var árið 1966 þegar liðið hét Baltimore Bullets.

Dropinn sem fyllti mælinn hjá stjórn félagsins var eflaust tap liðsins fyrir undirmönnuðu liði New York Knicks á laugardagskvöldið - þar sem New York var aðeins með sjö leikmenn á leikskýrslu.

Ed Tapscott mun stýra liði Washington þar til eftirmaður Jordan finnst, en hann er partur af þjálfarateymi félagsins.

Aðeins Jerry Sloan hjá Utah Jazz og Gregg Popovich hjá San Antonio Spurs höfðu setið lengur í sama þjálfarastólnum en Jordan í NBA deildinni.

Hann var að byrja sína sjöttu leiktíð hjá Wizards og kom liðinu í úrslitakeppnina fjórum sinnum á þessum tíma. Hann þjálfaði lið Austurdeildarinnar í stjörnuleiknum í fyrra.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×