Skoðun

Versló, SUS og Andri Snær

Rithöfundurinn, og handhafi frelsisverðlauna SUS, Andri Snær Magnason, lýsti því yfir í þættinum Silfri Egils fyrir rúmri viku að efnahagsvandinn á Íslandi væri gjaldþrot Heimdallar, SUS, Verslunarskóla Íslands og viðskiptaháskólanna. Líklega hefur hann þar fyrst og fremst verið að vísa til einhvers konar staðalmyndar af fólki sem tilheyrir þessum félagsskap.

Nú þegar hefur forseti Nemendafélags Verslunarskólans lýst óánægju sinni með þennan málflutning rithöfundarins, enda hljóta það að teljast kaldar kveðjur frá Andra Snæ til ungs fólks á aldrinum 16 til 20 ára í tilteknum skóla að við því blasi einhvers konar gjaldþrot. Og hvorki getur það talist uppbyggilegt né málefnalegt framlag af hans hálfu, þótt vafalaust hafi hvorki búið illgirni né Þórðargleði í orðunum. En það er mikill sannleikur í því að þel geti snúist við atorð eitt - og nú þegar óöryggi og óvissa ríkir meðal fólks er líklegt að meinleysislegar yfirlýsingar á borð við þetta geti hreyft óþægilega við fólki sem tekur orðin til sín en hefur ekkert til þeirra unnið.

Heimdallur og SUS eru reyndar allt annar handleggur í þessum efnum. Það er ekkert við það að athuga þótt hugmyndafræði þessara ágætu félaga skuli tekin til skoðunar og gagnrýnd. Einkum er þó við þá staðalmynd að etja sem hugmyndafræðilegir andstæðingar þessara félaga ungra Sjálfstæðismanna vilja ólmir halda á lofti. Þau stefnumál og grundvallarafstaða sem í raun og sann einkenna starf ungra sjálfstæðismanna hafa ekki átt birtingarmynd í alþjóðlega fjármálakerfinu á síðustu misserum. Í raun er öðru nær.

Hugmyndafræði ungra Sjálfstæðismanna byggist á frjálslyndi og einstaklingshyggju. Sú frjálshyggja felur í sér að fólk eigi að hafa gott svigrúm til að skapa og framleiða og geti notið ávaxtanna af því þegar vel gengur. Hún felur einnig í sér þá trú að eðlilegt sé að tryggja að fjármagn geti leitað í þann farveg sem mestu skilar fyrir hag fólksins þannig að fjárhagslegur ábati sé mestur fyrir þá sem geta sinnt þörfum meðborgara sinna á sem snjallastan hátt. Það er þó einnig nauðsynleg forsenda að markaðurinn skeri úr um það hvort hugmyndir séu góðar eða slæmar og því er nauðsynlegt að áhættufé tapist ef það er lagt í fyrirtæki eða verkefni sem ekki ganga upp. Á þessum grundvelli er markaðskerfið bæði réttlátt og hagkvæmt.

Vandinn í efnahagslífi heimsins, sem nú bitnar hvað harðast á Íslandi, er einmitt einna helst fólginn í því að stórfyrirtæki hafa haft tækifæri til að ganga fram í fölsku skjóli og taka áhættu á kostnað almennings. Eigendur og starfsmenn fyrirtækjanna hafa hins vegar notið ávaxtanna þegar vel gekk. Ótrúlegur gróði hefur hlaðist upp í fjármálafyrirtækjum um heim allan og mikill fjöldi hæfileikafólks hefur sogast inn í fjármálageirann þar sem gáfur þeirra hafa verið nýttar til að gera einfalda hluti flókna. Þessi gróði og þetta starfsfólk hefði eflaust nýst betur ef markaðurinn hefði stýrt þeim í átt að fjölbreyttari rekstri og iðju. En þegar ein tegund atvinnurekstrar - í þessu tilviki fjármálageirinn - telur sig starfa í þægilegu skjóli ríkisins frá því að tapa á slæmum ákvörðunum, verður til skekkja. Ruðningsáhrif fjármálageirans eru því sambærileg við aðra ríkistryggða stóriðju og beina kröftum samfélagsins í ranga átt.

Það er auðvelt að vinna knattspyrnuleik ef allir í hinu liðinu þurfa að leika með blý í skónum. En það er vitleysisgangur að hlaupa um fagnandi eftir slíkan sigur, það er dramb að sannfæra sjálfan sig um að sigurinn sýni fram á snilli og heimskulegur hroki að reyna að sannfæra aðra um það. En verst af öllu er þó þegar allt samfélagið fer að trúa á náðargáfu leikmanna sigurliðsins. En nákvæmlega þannig hefur fjármálageiri Vesturlanda getað starfað á síðustu árum en allur annar iðnaður þurft að heyja við hann ósanngjarna keppni um starfsfólk og fjármagn.

Andstæðingar ungra sjálfstæðismanna vilja á stundum láta eins og hugmyndafræði okkar snúist um að verja hagsmuni stórfyrirtækja eða valdhafa. Þetta er alrangt. Réttlæti markaðshagkerfisins felst einmitt í því að þar geta sviptingar orðið miklar. Sá sem er ríkur einn daginn getur tapað öllu og sá sem er fátækur getur snúið gæfunni sér í vil. Hið mikilvægasta er að allir keppi á jafnréttisgrunni og enginn þurfi að hafa blý í skónum þegar hann hleypur út á völlinn.

Að okkar dómi er ekki grundvallarágreiningur um það milli ungra sjálfstæðismanna og Andra Snæs Magnasonar, nema hann hafi skipt mjög um skoðun frá því hann gaf út bók sína Draumalandið. Sú bók féll í góðan farveg meðal frjálslynds ungs fólks því forsenda hennar var að einstaklingarnir sjálfir væru betur til þess fallnir að nýta sköpunarkraft sinn og dugnað til góðra verka heldur en miðstýring ríkisvaldsins. Það kom því mörgum ungum sjálfstæðismönnum á óvart að heyra Andra Snæ afflytja málstað okkar með þeim hætti sem hann gerði í Silfri Egils. Vonandi getum við flest látið okkur nægja að rífast um það sem við erum ósammála um, en látum ekki flokkadrætti reka okkur í deilur þegar við erum sammála.

Höfundur er formaður SUS.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×