Gengi hlutabréfa í Existu tók stökkið á grænum degi í Kauphöll Íslands í dag og hækkaði um 5,7 prósent. Þá hækkaði gengi bréfa í Bakkavör um tæp 5,6 prósent. Gengi bréfa í báðum félögum lækkaði mjög hratt í síðustu viku. Þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, kenndir við Bakkavör, eru stærstu hluthafar í báðum félögunum.
Þá hækkaði gengi bréfa í SPRON um 4,12 prósent í dag, gengi bréfa í Össuri um 3,95 prósent, í Straumi, Kaupþingi, Glitni og Marel um rúmt prósent en í Eimskipafélaginu, Landsbankanum og færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum um tæpt prósent.
Á sama tíma féll gengi bréfa í færeyska flugfélaginu Atlantic Airways um tæp 3,1 prósent og FL Group um 2,4 prósent. Gengi bréfa í Alfesca og Teymi lækkaði á sama tíma um tæpt prósent.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,62 prósent og stendur vísitalan í 4.941 stigi.