Körfubolti

NBA: Sigrar hjá Boston og Lakers

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rajon Rondo gefur boltann í nótt.
Rajon Rondo gefur boltann í nótt.

Tveir leikir voru í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Meistararnir í Boston Celtics unnu sannfærandi sigur á Detroit Pistons 98-80 og þá hélt Los Angeles Lakers sigurgöngu sinni áfram með 105-92 útisigri gegn Phoenix Suns.

Detroit hefur verið að ná góðum úrslitum að undanförnu en liðið átti í erfiðleikum með Boston. Jafnt var eftir fyrsta fjórðung en Boston vann næstu tvo af miklu öryggi og tryggði sér þar sigurinn.

Allen Iverson var stigahæstur hjá Detroit með 16 stig en hjá Boston skoraði Rajon Rondo 18 stig og var með 8 stoðsendingar. Kevin Garnett skoraði 15 stig.

Lakers heldur áfram að gera magnaða hluti á útivelli. Kobe Bryant var stigahæstur með 24 stig en var talsvert frá sínu besta. Samherjar hans stigu þá upp og stöðugleikinn var lykillinn að sigri Lakers. Liðið vann fyrstu þrjá fjórðungana en jafnt var í þeim síðasta.

Vladimir Radmanovic var með 15 stig fyrir Lakers. Amare Stoudemire var stigahæstur hjá Phoenix með 21 stig, Shaquille O´Neal var með 15 stig og 9 fráköst.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×