Gengi hlutabréfa í SPRON hefur hækkað um 5,5 prósent frá því viðskipti hófust í Kauphöllinni í dag og leiðir það gengishækkun á öllum íslenskum bönkum og fjármálafyrirtækjum sem þar eru skráð. Þetta er annar dagurinn í röð sem gengið tekur kipp en það hefur hækkað um tæp tíu prósent á tveimur dögum.
Á eftir SPRON fylgir gengi bréfa í Existu, sem hefur hækkað um 3,3 prósent. FL Group, Kaupþing, Landsbankinn, Straumur, Glitnir og Bakkavör hafa öll hækkað minna.
Gengi annarra félaga hefur haldist óbreytt það sem af er dags en gengi færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum er eina félagið sem hefur lækkað að markaðsvirði.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,34 prósent frá því viðskipti hófust fyrir um hálftíma og stendur vísitalan í 5.607 stigum eftir fremur dapra byrjun á árinu.