Gengi bréfa í færeyska flugfélaginu Atlantic Airways tók flugið í Kauphöll Íslands í dag og hækkaði gengi þeirra um 11,8 prósent. Þetta er langmest hækkun dagsins skráðra félaga eftir afhroð í vikunni. Gengi einungis tveggja félaga lækkaði á sama tíma. Í Icelandic Group og 365.
Á eftir fylgdi gengi SPRON og FL Group, en gengi beggja félaga hækkaði um rúm átta prósent. Gengi annarra félaga hækkaði minna, mest í hinum færeyska Eik banka, sem fór upp um 6,8 prósent, en minnst í Alfesca, sem hækkaði um 0,45 prósent.
Þrátt fyrir hækkunina í dag er ekkert félag í plús á árinu.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,97 prósent og stendur hún í 5.201 stigi.