Maria Sharapova vann í dag opna ástralska meistaramótið í tennis eftir að hafa borið sigurorð af Ana Ivanovic frá Serbíu í úrslitum, 7-5 og 6-3.
Sharapova lék betur í úrslitunum og átti sigurinn skilinn. Hún hafði mikla yfirburði í þeim lotum sem hún átti uppgjafarréttinn og því var það nánast aðeins tímaspursmál hvenær hún myndi ná að stela lotum af Ivanovic.
Þetta var þriðji sigur Sharapovu á stórmóti í tennis en hún vann Wimbledon-mótið árið 2004 og opna bandaríska meistaramótið árið 2006.
Hún á því aðeins eftir að bæta opna franska meistaratitlinum í safnið sitt.
Sharapova komst einnig í úrslit opna ástralska í fyrra en tapaði þá illa fyrir Serenu Williams, 6-1 og 6-2.
Ivanovic var að keppa í annað skipti í úrslitum stórmóts en í fyrra skiptið tapaði hún fyrir Justine Henin á opna franska meistaramótinu í fyrra.
Í fyrramálið fer svo úrslitaleikurinn í einliðaleik karla en þá mætast Jo-Wilfried Tsonga frá Frakklandi og Novak Djokovic frá Serbíu.
Í undanúrslitunum sló Tsonga út Rafael Nadal og Roger Federer varð að játa sig sigraðan gegn Djokovic.