Fernando Alonso telur fyrrum félaga sinn Lewis Hamilton hjá McLaren eiga ágætar líkur á því að standa uppi sem heimsmeistari ökuþóra í Formúlu 1 á næsta tímabili.
Grunnt var á því góða milli Alonso og Hamilton þegar þeir voru liðsfélagar hjá McLaren á síðasta tímabili og svo fór á endanum að Kimi Raikkönen skaut þeim ref fyrir rass og sigraði.
"Þetta verður allt mikið auðveldara fyrir Hamilton á þessu ári af því hann er reynslunni ríkari. Hann þekkir orðið allar brautirnar og hvernig keppni á hverjum stað gengur fyrir sig," sagði Alonso í samtali við BBC og var því næst spurður hvort hann teldi hinn 23 ára gamla Hamilton eiga möguleika á titlinum.
"Mögulega - já," sagði Spánverjinn. Hann telur þó að ekki megi gleyma heimsmeistaranum frá Finnlandi. "Ferrari og McLaren verða í kjörstöðu tila ð berjast um titilinn en ef ég á að nefna einn mann, þá held ég að það sé Kimi. Hann er meistarinn og maðurinn sem allir miða sig við núna."