Fótbolti

Celtic getur lært af Atletico Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samuel Eto'o, leikmaður Barcelona.
Samuel Eto'o, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / AFP

Forráðamenn og leikmenn Celtic hafa væntanlega verið límdir við skjáinn er Atletico Madrid vann góðan 4-2 sigur á Barcelona sem mætir einmitt Celtic í Meistaradeildinni í vikunni.

Barcelona vann fyrri leik liðanna í Skotlandi, 3-2, en leikurinn um helgina sýndi að Börsungar eru langt frá því ósnertanlegir.

Barcelona komst yfir í leiknum um helgina þökk sé glæsimarki Ronaldinho en töpuðu á endanum 4-2 sem fyrr segir. Liðið skorti tilfinnanlega festu á miðjunni og bit í sókninni.

Xavi, miðvallarleikmaður Barcelona, segir að mistök sinna manna hafi verið of mörg og of dýrkeypt. „Við verðum að læra að gera úr um leiki eins og þennan. Sérstaklega þegar við stjórnum leiknum. Þetta er sama gamla sagan, við gerðum of mörg mistök og var refsað fyrir þau."

Frank Rijkaard stjóri Barcelona ákvað að hvíla bæði Lionel Messi og Yaya Toure en það má búast við því að þeir verði báðir í byrjunarliðinu gegn Celtic.

„Úrslit þessa leiks hafa ekki áhrif á þann næsta," sagði Rijkaard. „Við vitum að við spiluðum ekki vel og að úrslitin voru slæm. En við verðum að halda áfram og undirbúa okkur vel fyrir Meistaradeildarleikinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×