Handbolti

Vill helst spila á Akureyri

Árni er kominn heim í heiðardalinn og vonast til þess að spila með Akureyri í vetur.
mynd/ole nielsen
Árni er kominn heim í heiðardalinn og vonast til þess að spila með Akureyri í vetur. mynd/ole nielsen

Handknattleikskappinn Árni Þór Sigtryggsson er enn án félags þegar stutt er í að Íslandsmótið hefjist. Hann er búsettur á Akureyri, er byrjaður þar í skóla og segist helst kjósa að spila þar. Það muni þó skýrast á næstu dögum.

Mörg félög í N1-deild karla bítast um að fá örvhentu skyttuna Árna Þór Sigtryggsson í raðir sínar fyrir næsta tímabil og nægir þar að nefna félög á borð við Val og HK. Árni Þór sneri heim í sumar eftir skamma dvöl á Spáni og hefur verið búsettur í uppeldisbæ sínum, Akureyri, síðan hann kom heim. Hefur hann verið að æfa með Akureyrarliðinu og spilaði einnig með þeim á opna Reykjavíkurmótinu um síðustu helgi.

„Það var alltaf fyrsti kostur hjá mér að spila með Akureyri og er það í raun enn," sagði Árni Þór sem hefur þó ekki enn fengist til þess að skrifa undir samning við félagið. „Það er verið að vinna í því að hafa alvöru lið hérna heima. Ef það gengur upp þá geri ég fastlega ráð fyrir því að vera hérna áfram. Við erum með ágætis lið en vantar samt styrkingu. Mér skilst að það sé allt að gerast og vonandi gengur það eftir. Það er víst verið að skoða einhverja útlendinga," sagði Árni Þór og bætir við að lítil stemning sé fyrir því meðal heimamanna að senda lið til þess eins að vera með.

Akureyri hefur misst nokkuð af mönnum í sumar og þar á meðal skytturnar Magnús Stefánsson og Einar Loga Friðjónsson.

Árni Þór er byrjaður í skóla á Akureyri en hann á eitt og hálft ár eftir af verkfræðinámi sem hann stefnir á að klára eins fljótt og mögulegt er. Hann yrði líklega að fórna önninni ef hann ákvæði að fara suður til þess að spila handbolta en enginn skortur er á tilboðum að sunnan. „Það eru vissulega möguleikar í stöðunni fyrir mig. Það er samt allt í skoðun og vonandi skýrast málin sem allra fyrst. Vonandi get ég einnig spilað hér heima fyrir mitt lið og mitt fólk," sagði Árni Þór.

henry@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×