Körfubolti

Jón Arnór frábær í sigri KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Nordal Hafsteinsson og Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn.
Jón Nordal Hafsteinsson og Jón Arnór Stefánsson eftir leikinn. Mynd/E. Stefán
Jón Arnór Stefánsson fór á kostum þegar að KR komst í kvöld í úrslit Powerade-bikarkeppninnar í körfubolta eftir sigur á Keflavík, 96-86.

Jón Arnór skoraði 35 stig í leiknum og fór mikinn í sóknarleik KR-inga.

Leikurinn var fremur jafn framan af en KR náði undirtökunum í öðrum leikhluta og leiddi í hálfleik, 50-46.

KR komst svo enn lengra fram úr í þriðja leikhluta og hafði tólf stiga forskot þegar lokaleikhlutinn hófst, 73-61.

En Íslandsmeistarar Keflavíkur neituðu að gefast upp og náðu með mikilli seiglu að skapa smá spennu í lokin.

Þegar mínúta var eftir náði Keflavík að minnka muninn í fjögur stig, 89-85, og vinna boltann strax aftur. Jón Nordal Hafsteinsson nýtti hins vegar annað vítakastið sem hann fékk og næsta sókn á eftir fór í súginn.

KR gekk því á lagið og vann að lokum tíu stiga sigur, 96-86.

Helgi Magnússon skoraði átján stig fyrir KR, Darri Hilmarsson tólf og Jason Dourisseau ellefu.

Jesse Pelot-Rosa skoraði átján stig fyrir Keflavík og tók þrettán fráköst. Steven Gerrard skoraði sextán stig og Sigurður Þorsteinsson fimmtán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×