Körfubolti

Treysti honum ekki fyrir hundinum mínum

Marbury þénar vel á því að sitja jakkaklæddur á bekk Knicks
Marbury þénar vel á því að sitja jakkaklæddur á bekk Knicks NordicPhotos/GettyImages

Brottför bakvarðarins Stephon Marbury frá New York Knicks virðist nú óumflýjanleg ef marka má viðtal sem tekið var við kappann í New York Post.

Marbury lýsir því yfir í viðtalinu að hann beri lítið traust til þjálfarans Mike D´Antoni - raunar svo lítið að hann "myndi ekki treysta þjálfaranum til að ganga með hundinn sinn yfir götu."

Marbury hefur nú farið formlega fram á það við stjórn Knicks að verða keyptur út úr samningnum sínum, en hann færir honum um 21 milljón dollara fyrir árið og gerir Marbury að einum hæstlaunaðasta körfuboltamanni heims.

Það væri í sjálfu sér í lagi ef Marbury væri ekki búinn að sitja á bekknum í jakkafötum alla leiktíðina þó lið hans sé undirmannað vegna meiðsla.

"Við verðum að skera á hnútinn. Þetta hjónaband er á enda," var haft eftir Marbury í NY Post.

Sagt er að Marbury muni jafnvel funda með forseta Knicks í kvöld til að reyna að finna lausn á málinu, en sagt er að Marbury hafi tvisvar neitað að spila þegar hann hefur verið beðinn um það á leiktíðinni.

Marbury sagði það ekki rétt, en hingað til hefur hann ekki verið tilbúinn til að veita afslátt af launum sínum ef ætti að kaupa hann út.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×