Fyrrum þungavigtarboxarinn Lennox Lewis segir ekki koma til greina að hann snúi aftur í hringinn og blæs þar með á fréttir í breskum fjölmiðlum um helgina.
Þar var því slegið upp að hinn 43 ára gamli Lewis væri til í að snúa aftur ef hann fengi 100 milljónir punda fyrir að berjast - og þá væntanlega við annan hvorn Klitschko bróðurinn.
Lewis gerði grín að blaðamönnum sem saumuðu að honum á bardaga Ricky Hatton og Paulie Malignaggi um helgina.
Þar sagði hann að það kæmi vel til greina að mæta Klitschko-bræðrum ef þeir myndu fallast á að mæta hvor öðrum í hringnum - en það er útilokað eins og allir vita, enda hafa þeir bræður lofað móður sinni að lumbra aldrei á hvor öðrum í hringnum.