Körfubolti

Pierce: Ég er besti leikmaður í heimi

NordcPhotos/GettyImages

Paul Pierce, verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna í NBA deildinni, var ekki lengi að hugsa sig um þegar hann var spurður hvort Kobe Bryant væri besti körfuboltamaður heimsins á dögunum.

Pierce sat fyrir svörum í spænsku blaði á dögunum og vildi þá meina að hann sjálfur væri besti leikmaður heims.

"Það er þunn lína milli þess að hafa trú á sjálfum sér eða vera hrokafullur. Ég fer ekki yfir þessa línu, en ég hef mikla trú á sjálfum mér," sagði framherjinn, sem lék eins og engill í lokaúrslitunum gegn LA Lakers þar sem Boston hafði 4-2 sigur.

"Fólki finnst ég kannski hrokafullur en ég hef spilað á móti þeim bestu og og mér finnst ég vera sá besti í augnablikinu," sagði Pierce.

Hann var spurður hvort ummæli hans væru skot á Kobe Bryant.

"Alls ekki. Ég hefði svarað þessari spurningu eins óháð því hvaða leikmaður ætti í hlut," sagði Pierce.

Hann vill meina að betra liðið hafi unnið í úrslitarimmunni í júní sl.

"Lakers liðið er frábært en ég held að það hafi einfaldlega mætt ofjörlum sínum í úrslitunum. Þeir voru með verðmætasta leikmanninn og lögðu besta lið Vesturdeildarinnar, en í úrslitunum mættu þeir betra liði. Lakers liðið verður áfram mjög gott og kannski mætum við þeim bara aftur í úrslitunum," sagði Pierce.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×