Körfubolti

NBA í nótt: Sacramento vann Lakers

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mikke Moore og Donte Greene, leikmenn Sacramento, spenntir í leikhléi.
Mikke Moore og Donte Greene, leikmenn Sacramento, spenntir í leikhléi.

Það urðu athyglisverð úrslit í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar Sacramento Kings sigaði Los Angeles Lakers 113-101. Kobe Bryant fékk ekki stundarfrið frá áhorfendum en skoraði samt sem áður 28 stig fyrir Lakers.

John Salmons og Francisco Garcia voru stigahæstir í sigurliði Sacramento en þeir skoruðu 21 stig hvor.

Það var háspenna þegar Dallas tapaði í tvíframlengdum leik fyrir San Antonio Spurs 126-133. Tim Duncan var með 32 stig og Tony Parker með 29 fyrir San Antonio en stigahæstur hjá Dallas var Dirk Nowitzki með 35 stig.

Það var einnig mikil spenna þegar Orlando Magic vann Portland Trail Blazers á útivelli 109-108. Hedo Turkoglu skoraði sigurkörfuna með langskoti á síðustu sekúndu. Rashard Lewis var með 27 stig fyrir Orland og Brandon Roy 30 fyrir Portland.

Cleveland Cavaliers vann níunda leikinn í röð þegar liðið lagði Toronto Raptors 114-94. LeBron James fór fyrir liði Cleveland og skoraði 31 stig en stigahæstur í jöfnu liði Toronto var Joey Graham með 17 stig en hann byrjaði leikinn á bekknum.

Hinn gamalreyndi Shaquille O'Neal var í stuði í nótt og skoraði 35 stig og tók 8 fráköst fyrir Phoenix Suns sem vann Milwaukee Bucks 125-110. Charlie Villanueva var með 24 stig fyrir Milwaukee.

Washington vann Detroit 107-94. Caron Butler var með 33 stig fyrir Washington en Richard Hamilton 29 fyrir Detroit.

Utah vann útisigur á Minnesota 99-96. Ronnie Brewer var með 25 stig fyrir Utah en stigahæstur í Minnesota var Al Jefferson með 21 stig.

Houston vann Atlanta 92-84. Yao Ming skoraði 24 stig fyrir Houston en Joe Johnson 22 stig fyrir Atlanta.

Þá vann Chicago sigur á New York 105-100. Drew Goden var með 22 stig fyrir Chicago og Al Harrington 28 stig fyrir New York.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×